Nokkrar skemmtilegar hugmyndir til að hafa gaman í vinnunni í aðdraganda jóla 🎄✨
Share
Jólin eru frábær tími til að skapa hlýju, gleði og samveru á vinnustaðnum. Hér eru nokkrar hugmyndir til að koma öllum í jólaskap og hafa gaman saman í desember!
Jólamarkaður
Það er fullt af hæfileikafólki á vinnustaðnum! Hvers vegna ekki að halda jólamarkað þar sem starfsmenn geta komið með heimagerðar vörur til sölu? Frábært tækifæri til að kaupa einstakar jólagjafir og styðja við kollega í leiðinni.
Góðgerðardagur
Skipuleggið góðgerðardag eða jólabasar. Fáið upplýsingar frá góðgerðarfélögum um hvernig hægt er að leggja sitt af mörkum t.d. með jólagjafasöfnun eða aðstoð við matarinnkaup fyrir fjölskyldur sem þurfa stuðning. Það gefur gott í hjartað að gera góðverk.
Jólaskrautaskiptimarkaður
Komið með jólaskraut að heiman og skiptist á. Góð leið til að endurnýja skrautið á umhverfisvænan hátt og fá eitthvað nýtt á tréð án þess að kaupa meira.
Skrítnar jólahefðir
Deilið ykkar sérstæðustu eða fyndnustu jólahefðum á innranetinu! Það er alltaf gaman að sjá hvað fólk gerir heima hjá sér yfir hátíðarnar.
EMOJI eða GIF jólasaga
Setjið saman jólasögu sem má aðeins segja með emojis eða GIF-um, engin orð leyfð! Þetta verður fljótt eitt vinsælasta “leikjahornið” á innranetinu.
Kakóbar
Setjið upp “heitt kakó bar” með rjóma, mini-marshmallows, nammi og öðrum skrauti. Fyrir þá sem vilja extra jólastemningu má bæta við smá rommi eða Stroh 😉.
Smákökusmakk
Smákökur eru ómissandi hluti jólanna! Haldið smákökusmakk þar sem fólk kemur með sínar uppáhaldskökur eða velur úr búð. Hver vinnur titilinn bestu jólasmákökurnar?
Aðfangadagur á vinnustaðnum
Látið lokadaginn fyrir jól verða hátíðlegan! Fólk mætir í sínu fínasta, jólamatur í hádeginu og kannski nokkrir pakkar undir trénu.
Jólagóðverkið
Gerið desember að “mánuði góðverkanna”. Hvetjið alla til að gera eitthvað gott fyrir samstarfsfólk hjálpa, hrósa eða bjóða í kaffibolla. Heilar deildir geta líka tekið sig saman og gert góðverk fyrir aðra deild. Lítil góðverk geta haft stór áhrif.
Jólalagakaraoke í hádeginu
Syngið saman uppáhalds jólasöngvana! Hægt er að spila upptöku af jólatónleikum eða hafa karaoke, allir með, enginn dómari!
Jólakonfektsmakk
Hvort vinnur: Quality Street eða Nóa/Linda? Skipuleggið smakk og látið starfsfólkið kjósa besta jólamolann. Sæt leið til að ljúka vinnudeginum!